Læknar hafa brugðist konum

Læknar hafa brugðist konum
Embla Rún Halldórsdóttir

Ísland er fremst allra þjóða í jafnrétti kynja samkvæmt nýjustu rannsóknum og ég tel mig svo heppna að vera stelpa akkúrat á þessu landi. En fremst þýðir þó ekki fullkomið jafnrétti. Þessi heimur, og öll okkar kerfi, voru byggð af karlmönnum fyrir karlmenn og það er erfitt að ná algjöru jafnrétti í svona ójöfnum kerfi. Meðal annars hefur vísinda- og læknasamfélagið kerfisbundið horft fram hjá konum og þörfum kvenna og leghafa í rannsóknum. Þar sem rannsakendur og þeir sem veita rannsóknastyrki hafa iðulega verið karlmenn þá hafa málefni annara hópa oft gleymst. Til dæmis eru lyfja skammtar miðaðir við karlmenn þar sem æskilegur lyfjaskammtur kvenna og leghafa breytist eftir tíðahringnum þeirra og erfitt er að vita nákvæmlega hversu mikið þau þurfa að hverju sinni. Rannsóknir á sjúkdómum sem hrjá aðeins þá sem eru með leg og píku eru ábótavant á meðan að sjúkdómar sem hrjá karlmenn hafa verið rannsakaðir mikið. Læknasamfélagið hefur of lengi horft fram hjá þessum stóra hópi samfélagsins og virðist ekki taka jafn mikið mark á þeim. Ég hef séð svo mörg dæmi um ‘kvensjúkdóma sem lítið er vitað um og ekki almennilega tekið mark á en það vantar einfaldlega fleiri rannsóknir til að útskýra þá og koma með lækningar fyrir þá. 



Ég var sjálf nýlega greind með lífslanga sjúkdómin fjölblöðruheilkenni, oft kallað PCOS. Það hefur áhrif á hormónastarfsemi líkamans og blöðrur geta myndast í eggjastokkunum sem veldur meðal annars því að manneskjan fer sjaldan á túr og getur átt erfitt með að verða ólétt, en það er breytilegt eftir manneskjum. PCOS er ekki lífshættulegt en það er mjög algengt. Talið er að í minnsta lagi 1 af hverjum 10 konum eru með heilkennið en fáar vita ekki af því né fá greiningu. Til eru furðulega fáar rannsóknir um PCOS, lítið er vitað um það hvað veldur því og ekki eru til neinar lækningar. Mér finnst það fáránlegt að ekki sé meira vitað um svona algengan sjúkdóm! Næst þegar þú ert í stórum hópi af fólki, til dæmis næst þegar þú ert í tíma, teldu hvort að það séu 10 konur eða stelpur þar. Samkvæmt tölfræðinni er líklegt að ein af þeim er með ólæknandi fjölblöðruheilkenni. 



PCOS er langt frá því að vera eini ‘kvensjúkdómurinn sem lítið er vitað um. Það eru ótrúlega margir aðrir sjúkdómar sem hrjá aðeins fólk með leg og hafa verið lítið rannsakaðir, margir þeirra eru einnig mun alvarlegri og jafnvel lífshættulegir. Við ættum ekki að þurfa að líða þessa kerfisbundnu mismunun. Við þurfum fleiri rannsóknir á sjúkdómum sem snerta leghafa. Allt of oft er ekki tekið mark á þessum sjúkdómum þar sem þeir eru oftast ekki sýnilegir og það er einnig taboo að tala um þá. En við erum nú helmingur af samfélaginu og ættum ekki að þurfa að þjást í hljóði. Læknasamfélagið hefur brugðist okkur hingað til en ég vona að með fleiri margvíslegri rannsakendum og með komandi árum batni þetta. Af því að ég er ekki bara einhver prósentutala, ég er manneskja sem þarf að lifa allt mitt líf með ólæknandi sjúkdóm vegna þess að læknasamfélagið hefur brugðist mér.

Share by: